Ágrip íslenskrar mótorhjólasögu
Eins og með innflutning bílsins að þá gerist ekki mikið næsta áratuginn í innflutningi mótorhjóla til landsins. Um miðjan annan áratug þessarar aldar fer þó að bera á því og upp spretta nokkur umboð mótorhjóla eins og BSA, Harley Davidson og Henderson en það umboð hafði Epsolin & Co. á Akureyri. Enn er til eitt eintak af þeim hjólum og er það í uppgerð. Reyndar er það aðeins annað af tveimur sem er eftir í heiminum í dag.
Næstu tvo áratugina gerist svo sem ekki mikið. Áfram er flutt eitthvað inn af mótorhjólum en í litlum mæli miðað við ört vaxandi fjölda bíla í landinu. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar breytist þetta hins vegar til muna. Kemur þar tvennt til, influtningur breska hersins á mótorhjólum til eigin þarfa og innflutningur íslenskra sjómanna á mótorhjólum sem keypt voru erlendis og flutt heim með skipunum. Þegar kom að því að bretinn fór þurfti hann auðvitað að losa sig við hjólin og bauð því landanum til kaups. Þessi hjól fóru fæst á skrá fyrr en eftir stríð og þess vegna mikið af hjólum til í skráningarbókum sem eru 1945-46 árgerð en eru í flestum tilfellum eitthvað eldri.
Á heimstyrjaldarárunum eignast Lögreglan í Reykjavík einnig sín fyrstu Harley Davidson hjól sem átti eftir að koma sér vel þegar Íslendingar fögnuðu stofnun lýðveldisins á Þingvöllum en þá sem seinna meir urðu miklar umferðartafir sem engin gat leyst úr nema auðvitað mótorhjólin sem áttu auðvelt með að smjúga á milli. Lögreglan hélt áfram að nota Harley Davidson hjólin alveg fram á okkar daga.
Influtningur á mótorhjólum fór stöðugt vaxandi eftir stríð. Á sjötta áratugnum fór að bera nokkuð á Vespum o þess háttar skellinöðrum og áttu mörg fyrirtæki í Reykjavík slík hjó, til sendlastarfa, þ.á.m. Landsvirkjun, Ríkisútvarpið og Landsíminn. Innflutningur mótorhjóla náði svo hámarki á áttunda áratugnum með "innrásinni" frá Japan. Árið 1974 flutti Honda umboðið til að mynda inn fimmhundruð mótorhjól, en það þýðir að þeir hafa verið að selja tvö hjól hvern virkan dag á því ári. Á þessum tíma verða líka til fyrstu mótorhjólaklúbbarnir eins og Elding og Bifreiða- og Vélhjólaklúbbur Reykjavíkur. Vélhjólaíþróttaklúbburinn er svo stofnaður 1978 og Sniglar 1. apríl1984.