Síðasti spretturinn

Það er nú orðið nokkuð síðan ég skrifaði hér síðast en það var 06. október. Við áttum ánægjulega stund með "góðu fólki" sem tók höfðinglega á móti okkur í Tallahassee. Nú reyndi í fyrsta skipti á það að aðbúnaðurinn brást þ.e. á hótelinu var hvorki nettenging né "vatn" í annars stórri og fallegri sundlaug. En komum okkur aftur að móttökunni, hún var alveg frábær okkar beið mikil "kalkúnaveisla" og einstaklega notaleg stund og síðan var okkur boðið í "besta" morgunmat ferðarinnar áður en við lögðum af stað morguninn eftir. Það voru því saddir og sælir ferðalangar sem lögðu af stað til Gainesville þann 08. október og sóttist okkur ferðin vel. Þar sem allir voru vel komnir eftir kvöldverð gærdagsins og góða morgunfyllingu þá skorti ekki þrek og kraft til að halda ferðinni áfram til St. Augustine, sem er elsti bær í Bandaríkjunum, en þangað var stefnan tekin. Það hékk yfir okkur allan daginn að það ætti eftir að fara að rigna, en það slapp lengi vel. Þar kom samt að því að við fengum rigningu, og keyrðum við inn í þennan forna bæ í rigningu og miklu slabbi. Gott var að koma sér fyrir inni á Best Western og fara í eitthvað þurrt. Við tókum okkur góðan tíma í að skoða og njóta St. Augustine, en aðra eins rigningu man ég varla eftir að hafa nokkurn tíman upplifað, nema þá helst í Englandi en maður ætti ef til vill að fara varlega að nefna þessa "fyrrverandi vini" okkar eins og ástandið virðist vera heima á landi "elds og ísa."
Eftir góða hvíld og skemmtilegt stopp í St. Augustine var stefnan tekin suður til Orlando og í leiðinni var farið til Daytona, mekka mótorhjólafólks. Leiðin sem farin var er oft nefnd "The Loop" og er mjög falleg, en til að komast þangað ókum við fyrst niður með austurströnd Florida skagans. Mjög skemmtilegt var að keyra þessa leið en stefnan var sett á smábæ sem heitir Mt Dora en þar eru tvær íslenskar konur með veitingarstað, þar fengum við okkur hádegismat, en bærinn er fallegur og vel þess virði að taka sér ferð þangað ef maður er hér. Eftir matinn var haldið áfram í átt til Orlando en þar endaði þessi ævintýralega ferð okkar sem hefur verið í alla staði frábær, hópurinn náð vel saman og höfum við alveg losnað við slys og bilanir utan þess sem geymasamband losnaði af einu hjólinu og einhverjir voru brenndir eftir púströr. Allt gott tekur einhvern tíman enda og nú er komið að endalokum hjá okkur í þessari ferð og hvað við tökum okkur fyrir hendur næst er óráðið, en það verður eitthvað skemmtilegt það er nokkuð víst.
Ég vil þakka öllu samferðafólki mínu fyrir ánægjulega daga og einnig þeim sem hafa gefið sér tíma til að fylgja okkur í þessu ævintýri okkar.
                                                                           
Flettingar í dag: 526
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 1064
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1671160
Samtals gestir: 86875
Tölur uppfærðar: 23.1.2025 07:36:48