The Dragons Tail

Það varð smá bið á því að við leggðum af stað í morgun, ástæðan var sú að það var þoka á fjallinu og ekki ráðlegt að fara af stað meðan svo var. Þar kom að þokunni lyfti og við héldum af stað í Smokey Mountain. Ætlunin var að fara upp þar sem kallað er "Dragons Tail" þetta er ekki löng leið, aðeins 11 mílur en þar er að finna 318 beygjur. Sögur eru af miklum slysum sem orðið hafa á þessum vegkafla og það var ekki laust við það að maður hefði blendnar tilfinningar þegar við vorum að fikra okkur áleiðis eftir sveitavegunum. Hér er allt svo gróið og að komast í fallegan haustskrúða. Það var ekki mikil umferð, enda ef til vill ekki við því að búast á sunnudagsmorgni. Smátt og smátt hlýnaði og þegar við stoppuðum rétt áður en haldið var á "Drekann" var fallegt veður og allir í stuði og tilbúnir fyrir ævintýrið.
Ferðin gekk frábærlega og engin óhöpp, lof sé Guði. Við mættum nokkrum sem voru á niðurleið og voru þeir á mikilli ferð, en það er víst nokkuð um það að menn eru að taka tímann sem það tekur þá að fara þessar 11 mílu. Þegar upp var komið er komið að verslun og matsölu og þar var allt fullt af hjólum og mikið líf. Auðséð að þessi ferð er vinsæl á meðal mótorhjólafólks. Þarna voru að sjálfsögðu keypt merki og eitthvað fleira til merkis um það að hafa tekist á við þetta verkefni og "sigrað drekann."
Eftir dálítið stopp þarna tók við áframhaldandi ferðalag hjá okkur en meiningin var að koma sér áleiðis til Atlanta. Leið okkar lá nú um þetta frábæra svæði sem þessi fjöll eru og mikið að sjá og mikil skemmtun fyrir okkur á mótorhjólum að geta tekist á við þetta verkefni. Okkur tókst að splitta hópnum og varð úr nokkur leit sem endaði þó með því að við náðum saman og lukum deginum með því að bóka okkur inn á Days Inn í Gainesville sæl og glöð eftir frábæran dag.

Flettingar í dag: 5517
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 18225
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1581405
Samtals gestir: 84122
Tölur uppfærðar: 22.12.2024 06:31:50