Nashville

Já, við erum hér enn. Það hefur ekki tekist að setja inn færslu fyrr en nú en ferðin okkar gekk mjög vel til Nashville, Tennessee. Og við ákváðum að vera þar í tvær nætur og láta líða úr okkur, það var ekki laust við að það væri komin dálítil þreyta í mannskapinn. Þetta var öllum mjög kærkomið og spennandi að fá tækifæri á því að skoða þessa "höfuðborg kántrí tónlistarinnar".
Farið var á rölt á Broadway þar sem mikið var um að vera og gengið á milli staða og hlustað á alveg frábæra tónlistarmenn. Ákveðið hafði verið að fara út saman og borða og sjá skemmtun sem leit vel út í auglýsingarbæklingnum. Þegar til kom var eins og við hefðum dottið inn á skemmtun félags aldraðra, ef til vill nokkuð sem væri tímabært að fara að venja sig við, þó ekki væru allir sammála um það. Maturinn var ekki upp á marga fiskana og skemmtunin, ja, við skulum ekki ræða mikið um það.
Á föstudeginum var slappað af og voru allir fegnir að vera ekki ræstir fyrir allar aldir til að leggja í hann. Það var úthvíldur hópur sem "gekk", já ég meina það, við gengum í bæinn og nú var komið að því að skoða í alvöru. Allt gekk þetta eins og í sögu og var verið að allan daginn og fram á kvöld. Aftur var farið og hlustað á tónlistarmennina fremja gjörninga sína og vakti það áframhaldandi ánægju allra.
Síðan var kominn tími fyrir "eldri borgarana" af fara í háttinn og gera sig tilbúna til að fara snemma á fætur næsta dag til að leggja aftur land undir fót en nú er feðinni heitið í Smoky Mountains National Park, en þar stendur til að vera um helgina áður en haldið verður suður til Florida.
Það er merkilegt til þess að hugsa hve langt komið að ekki er nema vika þar til við verðum komin til Orlando og mótorhjólaferðin búin.
En fyrir þá sem eru að fylgjast með okkur þá er allt gott af öllum að frétta og hópurinn heldur áfram að ná vel saman og ríkir mikið gleði og samheldni í hópnum.

Flettingar í dag: 605
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 1064
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1671239
Samtals gestir: 86884
Tölur uppfærðar: 23.1.2025 07:58:00