10.04.2012 00:02

Að halda í vonina ...

"Og þú munt vera öruggur, því að enn er von" Job 11:18

Vonin er mikið afl. Trúlega höfum við öll reynslu af því, hún hefur þannig áhrif á huga okkar að við könnum alla möguleika sem upp koma. Oftar en ekki er það svo að vonin hjálpar til við það að yfirstíga hindranir sem verða á vegi okkar. Þegar kemur að trúarlífinu hef ég reynt það að hún er algjörlega nauðsynleg. Það má segja að vonin sé eldsneytið sem knýr hjarta okkar áfram. Í mínu eigin lífi hefur hún verið það sem gert hefur gæfumuninn þegar kemur að því að halda áfram eða gefast upp.

Þegar kemur að hjónabandinu þá er það vonin sem er þess valdandi að tveir einstaklingar "gefast" hvort öðru án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því sem framundan er, og síðar meir, eftir öll brostnu loforðin, sópa saman brotunum og eru tilbúin að reyna upp á nýtt með þá fullvissu að þetta geti batnað.

Vonin (Þórhallur Hróðmarsson)

Vonin okkur verðmæt er,

hún vermir mannsins hjarta

gegnum vonarglerin sér

          hann giftu' og framtíð bjarta.
 

Þó að syrti álinn í

alltaf samt hún færir

þrekið jafnt sem þrótt á ný

          og þolinmæði nærir.
  

Vonin mig á vængjum ber

víst hún margan laðar.

Þegar annað þrotið er,

          þá er hún til staðar.

Þessu má lýkja við málara eða tónskáld sem hefur fulla trú á þeirri fegurð sem af erfiðinu mun koma. Þegar Michelangelo þrælaði við að mála hvelfinguna í Sixtínsku kapellunni kom oft upp löngunin til að hætta, en á hverjum morgni var það vonin sem knúði hann áfram upp stigann til að klára meistaraverkið. Vonin knúði líka Abraham þegar hann yfirgaf allt án þess að vita hvert Guð ætlaði honum.

Það er margt sem við getum glatað um æfina en voninni megum við aldrei glata.

Trúlega hefur enginn upplifað eins mikinn missi og Job en samt eru orðin sem ég byrjaði á höfð eftir honum "Og þú munt vera öruggur, því að enn er von".

Höldum því voninni lifandi í hjarta okkar með því að treysta Guði .

                                    

Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1064
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1670828
Samtals gestir: 86864
Tölur uppfærðar: 23.1.2025 04:52:08