02.01.2012 21:30

Legg þú út á djúpið ...

"Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar."  Lk. 5.4

Þegar ég hugsa um árið sem er framundan þá er ekki hjá því komist að hugurinn ráfi um árið sem var að kveðja. 2011 var erfitt ár og er ég feginn að því er lokið. Einhver orðaði það þannig að meðalmennskan væri aðeins það besta af því versta og það versta af því besta. Spurningin sem ég spyr sjálfan mig er hvort það sé það sem ég vilji fyrir árið sem er að byrja? Ef svo er ekki þá er ekki um neitt annað að ræða fyrir mig en að sleppa takinu af öryggislínunni sem heldur mér þar sem ég er og ég kannast svo vel við, og fara þangað sem Guð vill leiða mig. Það var þannig að eftir að hafa verið við veiðar alla nóttina án þess að fá nokkuð þá sagði Jesús við lærisveina sína, "Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar." Með öðrum orðum þá sagði hann þeim að yfirgefa öryggið á ströndinni og horfast í augu við það sem hafið hafði upp á að bjóða, logn eða storm, vitandi að Guð var með þeim.

"Öryggi er tálsýn, ein af ástæðunum fyrir því að ég upplifi það ekki er að í raun er það ekki til. Að forðast hættur og mistök veitir ekki meira öryggi þegar til lengri tíma er litið en hrein og bein áhætta. Lífið er annaðhvort áhættusamt ævintýri eða alls ekki neitt."

Að leggja út á djúpið þýðir að setja sér markmið, gera áætlun um það hvernig ég ætla að ná þeim og að vera áreiðanlegur. Til að þetta takist þarf ég að vera í tengslum við vilja Guðs,  að horfast í augu við það sem ég óttast og gera mér grein fyrir því sem bíður þegar ég hef staðist. Það mætti segja að þetta sé eins og að líta í spegil og annaðhvort meðtaka það sem þú sérð eða leiðrétta stefnuna. Þetta leiðir mig á þann stað að helga líf mitt einhverju sem er stærra og meira en ég, jafnvel þegar aðrir skilja mig ekki. Davíð tjáir þetta svo vel með orðunum í 23. sálmi og 4. versi "óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér" og það er í raun hugarfarið sem ég þarf að hafa um leið og ég set markið hátt.

Nú þegar nýja árið er gengið í garð þá ætla ég að rifja upp gæsku og góðvild Guðs. Bera saman ávinning þess að leiðast af vilja hans og það sem ég hef þurft að fara í gegnum vegna rangra ákvarðana minna. Þegar ég hef gert það er ég staðráðinn í því að "Leggja út á djúpið" og líta ekki um öxl ...

                                             
Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1064
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1670828
Samtals gestir: 86864
Tölur uppfærðar: 23.1.2025 04:52:08