13.10.2011 18:00

Það er ekki allt búið ...

"Þú gleður mig, Drottinn, með dáðum þínum, ég fagna yfir verkum handa þinna."     Slm. 92.5

 

Undanfarin ár hef ég gengið í gegnum erfið tímabil í lífinu þar sem ég upplifði að allt væri búið. Vonin var horfin, traustið farið og trúin ekkert til að hrópa húrra yfir. Sú hugsun hefur jafnvel komið upp að Guð hafi yfirgefið mig.

Ísraelsmönnum leið þannig þegar þeir komu að Rauðahafinu.  Þeir höfðu ákveðið að fylgja Móse og hvert leiddi það þá?  Þeir sáu enga undankomuleið, þeir vissu að Faraó var á eftir þeim til að koma þeim aftur til Egyptalands. Þeir upplifðu að engir vegir væru færir og voru tilbúnir til að gefast upp og snúa við. Þá varð þeim að orði við Móse: "Eru engar grafir til í Egyptalandi úr því að þú fórst með okkur til að deyja í eyðimörkinni? Hvers vegna hefurðu gert okkur þetta og farið með okkur út úr Egyptalandi? Er það ekki einmitt þetta sem við sögðum við þig í Egyptalandi: Láttu okkur í friði. Við viljum þræla fyrir Egypta því að það er skárra fyrir okkur að þræla fyrir Egypta en að deyja úti í eyðimörkinni." Móse svaraði fólkinu: "Óttist ekki. Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur í dag því að þið munuð aldrei framar sjá Egypta eins og þið munuð sjá þá í dag. Drottinn mun sjálfur berjast fyrir ykkur en þið skuluð ekkert að hafast."  2. Mós.14.11-14

Ef til vill líður þér þannig í dag. Þú virðist aðþrengdur og engin undankomuleið virðist greið. En stöldrum við, Biblían segir okkur að við munum ekki tapa baráttunni ef við förum eftir leiðsögn Guðs. Þetta er ekki loka stundin. Drottinn er engum líkur, hann er skapari og hönnuður lífsins. Örvæntu ekki, ekki gefast upp, því Kristur í þér mun ekki bregðast þér - aldrei.

Í dag hef ég eignast von, sem hjálpar mér að horfa fram á veginn. Guð hefur ekki gefist upp á mér hann hefur gefið mér styrk til að takast á við hlutina og horfast í augu við sjálfan mig. Innan skamms mun afplánun minni lokið og framundan er nýr tími sem ég ætla að njóta til fulls. Ég hef komist að því að vinátta er ekki bara orð sem sögð eru.  Ég hef upplifað að það eru fáir sem eru tilbúnir að ganga með manni þegar maður hefur brotið af sér og þarf á vináttu og leiðréttingu að halda. Það er þó alltaf einn sem tilbúinn er til að standa með mér og það er Drottinn.

Drottinn sagði  "Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars."  Jóh.13.35  Ég bið til Guðs að mér auðnist gæfa til að lifa samkvæmt þessu orði og vera vinur í raun og geta þannig deilt reynslu minni með þeim sem verður það á að brjóta af sér og bregðast sjálfum sér og umhverfi sínu. Þið sem  upplifið að þið eigið enga von og teljið jafnvel að best sé að gefast bara upp.  Ekki gleyma  því sem stendur í Guðs orði:  "Drottinn mun berjast fyrir þér ..."

                                          

Flettingar í dag: 391
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 1064
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1671025
Samtals gestir: 86870
Tölur uppfærðar: 23.1.2025 05:13:18