03.07.2011 11:12
Réttur fókus ...
"Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig." Jes. 26.3
Lífið er ekki alltaf eins og við viljum að það sé. Ég hef verið að hugsa um það að lífið er að mörgu leiti eins og myndavél, maður þarf að stilla fókusinn rétt til þess að útkoman verði í lagi. Það sem réttur fókus gerir fyrir mann er að hann;
- Einfaldar hlutina. Þegar ég er ekki viss um tilganginn fyrir tilvist minni þá hættir mér til að reyna að gera of mikið, sem þá veldur streytu, innri baráttu og óreiðu. Málið er að ég hef rétt nægan tíma og orku til að gera það sem Guð vill. Alltaf sé ég betur og betur að það að koma ekki öllu í verk er merki um það að ég er að reyna að gera mun meira en mér var ætlað. Fókus leiðir til einfaldara lífs og viðráðanlegri verkefni. Það er aðeins þegar mér tekst að halda fókusnum réttum að ég upplifi frið innra með mér, mér líður vel. "Þú veitir ævarandi frið því að þeir treysta þér"
- Gefur stefnu. Ef ég vil að líf mitt hafi áhrif þá er leiðin að leita ráða hjá Drottni, en ekki bara leita ráða heldur gera það sem hann ráðleggur. Eitt af því sem ég hef þurft að læra er að það er ekki spurning um annríki heldur afköst. Þegar ljósi er dreift út um allt þá eru áhrifin takmörkuð, en þegar ljósinu er beint í ákveðna átt eins og leisergeisla þá er jafnvel hægt að skera með því stál.
- Gefur aukna orku. Það er oftar en ekki marklaus vinna en ekki of mikil vinna sem þreytir mann. "Sönn ánægja er að finna sér markmið sem þér finnst mikið til koma og gefa þér tilgang."
- Það gerir þig eftirminnilegan. Þegar fólk hugsar um þig hvað mun þá koma upp í huga þess? Mér hefur lærst að, "Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull." Okv.22.1 Það sem í dag er mikilvægt fyrir mig er að ég get treyst á fyrirgefningu Guðs og það að hann hefur gefið mér nýtt tækifæri. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki málið hvað aðrir segja um mig, heldur hvað Guð segir. Ég mun því halda fókusnum á endataflinu.