23.06.2011 23:10

Að framganga í trú ...

"Minn réttláti mun lifa fyrir trúna."  Heb. 10.38

Að framganga í trú er ekki auðvelt. Þegar tekin er ákvörðun um að treysta Guði þá hrannast mótbárurnar venjulega upp. Hugsum okku Nóa ! Þegar hann byggði örkina þá hafði aldrei rignt ! Útkoman er ekki alltaf eins og maður hugsar sér hana. Að framganga í trú þýðir ekki endilega að vandamálin gufa upp. Stundum breytir trúin ekki kringumstæðunum, en hún breytir mér og gefur mér seiglu til að halda áfram þegar ég fæ ekki svarið sem ég vænti, eða þegar læknirinn segir, "Þetta er illkynja", makinn biður um skilnað, börnin verða algjörlega stjórnlaus, eða vinnustaðnum sem þú hefur starfað á í 30 ár er skyndilega lokað. Trúin gefur hugrekki til að halda áfram, fullviss um að Guð er með mér í liði. "Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð."  Heb.11.1-2

Þannig að það að framganga í trú þýðir, - að treysta á trúfesti Guðs, - að feta í fótspor venjulegs fólks sem gerði óvenjulega hluti, - að nota trú sína af því að hún er gjaldmiðill himinsins.

Þegar Biblían segir "Minn réttláti mun lifa fyrir trúna" þá er ekki átt við einstaka törn sem stendur yfir í stutta stund. Nei, hér er átt við lífsstíl. Við getum öll staðið af okkur fyrstu loturnar, en það er spurningin hvað gerist þegar ég er sleginn niður í níundu lotu, þá þarf ég trú til að rísa á fætur og halda áfram. Þegar ég er staddur í flugvél sem lendir í ókyrrð þá kasta ég ekki miðanum eða hætti við, heldur sit ég sem fastast og treysti flugmönnunum. Þannig vil ég líka horfa fram hjá kringumstæðum mínum, leggja af efasemdirnar og byrja að framganga í trú og trausti til þess að " Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta ..."

                                         

Flettingar í dag: 4996
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 18225
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1580884
Samtals gestir: 84119
Tölur uppfærðar: 22.12.2024 04:39:58