25.05.2011 14:50

Sýnum miskunn ...

"Kærleikur hans er svo takmarkalaus að hann tók burt allar syndir okkar með dauða sonar síns og frelsaði okkur."  Ef.1.7 (Biblía Mótorhjólafólks)

Hefur þú tekið eftir því hversu fljót við erum að dæma það sem aðrir gera en horfum framhjá því sem við gerum sjálf ?  Páll talar um "takmarkalausan kærleika" sem Drottinn auðsýnir okkur hverju og einu. Hér er einn hængur á, að við takmörkum þennan kærleika þegar við neitum að sýna hann sjálf. Jesús sagði, "Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar." Mk.11.25 .

Það er ekki mitt að ákveða hvaða brot ég fyrirgef og hvað ég á að halda í gegn einhverjum og neita að fyrirgefa. Okkur er skipað að "ástunda kærleika" "Hann hefur sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum?" Míka 6.8. Það þýðir að ég verð að sækjast eftir því að lifa á þennan hátt og setja það sem markmið í lífi mitt. Ég get ekki sagt, "ég fyrirgef honum þegar hann á það skilið." Fyrirgefning samkvæmt Biblíunni er ekki skilyrt, ég get ekki unnið mér hana inn, ég á hana ekki skilið, og  get ekki samið um hana. Jesús sagði, "Gefið á sama hátt og þið hafið þegið!" Mt.10.8 (Biblía Mótorhjólafólks)

"Já, en ef ég fyrirgef henni þá kemst hún upp með þetta." Ég er ekki að láta neinn komast upp með nokkuð, því þótt ég fyrirgefi einhverjum þá er enn refsing sem þarf að taka út. Það er bara ekki í mínum verkahring að refsa. "En, ef ég fyrirgef honum þá heldur hann áfram að meiða mig." Fyrirgefning þýðir ekki að samskipti verði eins og áður. Það tekur tíma að byggja upp traust aftur.  Ef brotið er ofbeldi eða setur líf mitt í hættu - þá á ég að fyrirgefa, en halda mér í burtu öryggis míns vegna. "Ef ég fyrirgef þá meiðir hann mig bara aftur."

Sannleikurinn er sá að Guð hefur gefið mér frelsi, frelsi til að velja, ég get valið að sýna miskunn, ég get valið að fyrirgefa jafnvel þótt ekki sé beðið um fyrirgefningu eða þótt mér finnist sem engin merki um iðrun sé  til staðar. Kristur fyrirgaf mér.  Hann dó á krossinum fyrir mig og tók þar á sig allar mínar misgjörðir og það gerði hann einnig fyrir alla aðra.

                                             
Flettingar í dag: 5456
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 18225
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1581344
Samtals gestir: 84119
Tölur uppfærðar: 22.12.2024 05:49:39